Í fyrsta lagi er ekki til neitt sem heitir slæmt eða gott hár en öðru máli gegnir með heilbrigt hár, það er til og innan seilingar. Þó flest fólk viti hvernig húðgerð það er með (og sé hugsanlega með flókna rútínu í samræmi við það), eru mörg okkar sem höfum bara giskað á hárgerð okkar með því að raða saman upplýsingum úr ólíkum áttum, t.d. af netinu, frá hárgreiðslufólki, vinum, fjölskyldu og fleirum. Mismunandi hárgerðir þurfa mismunandi meðhöndlun og þess vegna skiptir miklu máli að þekkja hárgerðina til að geta meðhöndlað hárið rétt. Röng nálgun getur orðið til þess að hárið verður óviðráðanlegt og óheilbrigt. Að sama skapi, rétt eins og með húðina, getur rétta rútínan skilað undraverðum árangri.
Hárgerðir – hvað er verið að tala um þegar við tölum um það?
Hárgerð vísar til náttúrulegrar áferðar hársins. Það sem ákvarðar hárgerðina er m.a. lögun hársekkja, ummál hvers hárs og það hvort hárið hefur einhverja liði eða krullur.
Hvað sker úr um hárgerð?
Erfðir ákvarða hárgerðina – þar sem erfðaefni hefur áhrif á lögun hársekkja.
Hverjar eru hárgerðirnar?
Hægt er að skipta hárgerðum í fjóra flokka: slétt, liðað, krullað og snarhrokkið. Þykktin getur verið mismunandi fyrir allar þessar hárgerðir.
- Slétt hár
Slétt hár vex úr kringlóttum eða ofurlítið egglaga hársekkjum. Þessi hárgerð er oft dálítið létt og fjaðurkennd en það þarf þó alls ekki alltaf að vera. Uppbyggingin á sléttu hári gerir það að verkum að húðfitan sem er framleidd í hársekkjunum dreifist auðveldlega niður hárið. Röng meðferð á þessari hárgerð getur orðið til þess að hárið virðist fitugt þegar það er umfram húðfita. Fólk með slétt hár kvartar gjarnan yfir skorti á fyllingu – sérstaklega ef hárið leggst mjög flatt eða ef smækkun á sér stað í hársekkjum. (Meira um smækkun síðar.) - Liðað hár
Liðað hár vex úr egglaga hársekkjum. Þessi hárgerð getur verið liðað á þann hátt að mjög auðvelt er að slétta það, laust S-laga mynstur sem fellur ekki auðveldlega í sama farið aftur eða mjög vel formaðir miklir liðir. Þessi hárgerð virðist oft dálítið þurrari en slétt hár vegna þess að það er erfiðara fyrir húðfituna að dreifa sér. Röng meðferð á þessari hárgerð getur lýst sér í minni lyftingu við rótina, auknum úfa og smám saman minni liðum og formleysi. - Krullað hár
Krullað hár vex úr egglaga til sporöskjulaga hársekkjum. Þessi hárgerð getur verið laus spírall, gormlaga slöngulokkar eða þéttar spírallaga krullur. Röng meðferð á þessari hárgerð getur minnkað krullurnar eða gert þær ójafnar, aukið úfa sem og þurrk. - Snarhrokkið hár
Snarhrokkið hár vex úr flötum, egglaga hársekkjum. Þessi hárgerð getur lýst sér sem þéttar krullur sem vefjast hver um aðra, þéttar sikksakk-krullur eða svo þéttar krullur að þú sérð sikksakk-mynstrið eingöngu þegar þú teygir á hárinu. Röng meðferð á þessari hárgerð getur leitt til þurrks og slits eða vandamála í hársverði vegna þess hversu erfitt er að þvo svona þétt hár.
Hvernig veit ég hvaða hárgerð ég er með?
Við mælum með að gefa sér nokkra klukkutíma eða jafnvel heilan dag í að finna út hver hárgerðin er þar sem það krefst þess að þú þvoir hárið og sleppir bæði hármótunarvörum og heitum hármótunartækjum.
- Þvoðu hárið og settu í það næringu eins og venjulega.
- Að því loknu skaltu greiða varlega úr hárinu með fingrunum eða grófri greiðu án þess að nota nokkur efni.
- Leyfðu hárinu að þorna alveg.
- Skoðaðu hárið og finndu hvernig það er viðkomu.
Hér eru nokkrar spurningar sem þú munt fá svör við:
- Leggst hárið slétt eða verður það meira liðað?
- Er hárið mjúkt viðkomu eða er það gróft og hrjúft?
- Er hárið þurrt og úfið eða er það frekar fitugt og klessist saman?
- Er erfitt að skipta hárinu eða skiptir það sér auðveldlega?
Hér eru nokkur einkennandi eiginleikar hverrar hárgerðar fyrir sig sem þú kannt að þekkja eftir hárskoðunina:
Slétt hár: Hárið leggst flatt í hársverðinum, hvergi er liði eða krullur að sjá og það skortir fyllingu.
Liðað hár: Hárið þornar í S-lögun, kann að vera úfið og leggst meira í hvirfli en liðir birtast í miðju hári.
Krullað hár: Hárið er með vel greinilegum slöngulokkum, flækist auðveldlega og þurrir lokkar og/eða úfnir og krullur byrja við rótina.
Snarhrokkið hár: Hárið kippir sér mikið upp þegar það þornar með þéttum slöngulokkum sem byrja strax við rótina.
Hafðu í huga að hárið getur átt heima í tveimur eða fleiri flokkum. Til dæmis gæti hárið verið flatt efst en verið liðað undir, t.d. við hnakkagrófina, eða að krullumynstur sé mismunandi eftir stöðum, t.d. með krullum við rótina og sléttari enda. Slíkur mismunur getur verið vegna vandamála í hársverði, ónógs raka í hári, skemmda eða rýrnunar.
Hefur þéttleiki hárs eða þykkt áhrif á hárgerð?
Nei, erfðir ákvarða hárgerðina. En ef hárið er að missa þykkt getur það haft áhrif á útlit þess. Margir sem leita aðstoðar hjá okkur voru með þykkt, krullað og fallegt hár sem varð auðveldlega sítt en með tímanum varð það þunnt, úfið, líflaust og hætti að vaxa eftir ákveðna sídd.
Þéttleiki hárs
Með þéttleika er átt við fjölda hára á hverri fertommu hársvarðar. Erfðir ákvarða hversu þétt hárið vex hjá þér. Þessu er skipt í lítinn, miðlungs eða mikinn þéttleika. Fólk með lítinn þéttleika hárs er með færri hár á hverja fertommu en ef þú ert með mikinn þéttleika ertu með fleiri hár á hverja fertommu. Þéttleikinn getur orðið fyrir neikvæðum áhrifum af samspili erfða og hormóna sem getur leitt til rýrnunar hársekkja og minni þéttleika með tímanum. Það kann að hefjast allt frá unglingsárum.
Þykkt hárs
Þegar talað er um þykkt hárs í þessu samhengi er átt við hversu umfangsmikið hvert hár er, sem sagt þvermál þess. Erfðir ákvarða hvort þú ert með fínt, venjulegt eða gróft hár. Fólk með fíngert hár er oftast með fjaðurkenndara hár en ef þú ert með gróft hár er það oftar en ekki þurrara og hrjúfara. Líkt og með þéttleikann, getur samspil erfða og hormóna haft neikvæð áhrif á þykkt og leitt til smækkunar hársekkja sem og hársins sjálfs, bæði hvað varðar þykkt og sídd.
Eru ákveðnar hárgerðir viðkvæmari fyrir hártapi en aðrar?
Hárlos stýrist ekki af hárgerðinni. Allar hárgerðir þarfnast þess að hugsað sé fyrst um hársvörðinn til þess að ná (eða viðhalda) þéttu og heilbrigðu hári með góða fyllingu. Algengasta tegund hártaps er karlhormónatengd og ræðst af samspili erfða og hormóna. Slíkt hártap getur þó versnað til muna ef þvottarútínan er ófullnægjandi eða röng en það hefur áhrif á viðkvæmt lífumhverfi hársvarðarins og getur valdið ertingu, bólgum og hárþynningu.
Hárið þynnist þegar hársekkir smækka í kjölfar samspils erfða og hormóna. Smækkunin verður þegar hársekkirnir smækka smátt og smátt sem þýðir að lífsferill hársins styttist. Það verður til þess að það hár sem kemur í stað hárs sem losnar, er lélegra og verður minna ummáls og birtingarmyndin verður gisnara hár heilt yfir. Þessi hár eru grennri, veikbyggðari og glærari og geta ekki vaxið eins lengi. Eftir því sem tíminn líður myndast ör á hársekkjum og hár hætta að myndast í þeim.
Hvaða hárrútína hentar hverri hárgerð?
Slétt hár
Þar sem slétt hár er gjarnara á að mynda meiri húðfitu er oft nauðsynlegt að þvo það oftar til að stemma stigu við umfram húðfitu. Þó hárið verði auðveldlega þakið húðfitu er samt mikilvægt að veita því næringu, en þó aðeins frá eyrum og niður úr.
Nauðsynlegt fyrir slétt hár: Balancing Shampoo, Stabilizing Scalp Shampoo, Daily Conditioner.
Liðað hár
Fólk með liðað hár þarf að þvo hárið daglega eða annan hvern dag en passa jafnframt upp á næringu til að halda náttúrulegri áferð hársins. Það þarf því alltaf að nota næringu þegar hárið er þvegið og nota einnig hárnæringu sem ekki þarf að þvo úr. Að auki er best að nota hármaska einu sinni til tvisvar í viku. Það eykur mýkt og gljáa og minnkar úfa.
Nauðsynlegt fyrir liðað hár: Stabilizing Scalp Shampoo, Fortifying Shampoo, Daily Conditioner, Hair Hydrating Crème, Hair Mask.
Krullað hár
Líkt og með liðað hár er mikilvægt að einblína á rakagjöf. Passa skal að nota hárnæringu eftir hvern hárþvott hvort sem hann er daglega eða annan hvern dag og nota líka hárnæringu sem ekki þarf að þvo úr. Fólk með þurrar og þéttar krullur getur aukið rakann með því að nota Hair Mask sem hármótunarvöru og haldið þannig krullum formfögrum ásamt því að minnka úfa.
Nauðsynlegt fyrir krullað hár: Stabilizing Scalp Shampoo, Fortifying Shampoo, Daily Conditioner, Hair Hydrating Crème, Hair Mask.
Snarhrokkið hár
Fyrir snarhrokkið hár er bráðnauðsynlegt að tryggja að hársvörðurinn sé þveginn almennilega þar sem erfitt getur reynst að þvo hann vandlega vegna þess hversu þétt hárið er. Tíðni hárþvotts getur verið mismunandi. Fyrir sumt fólk dugar að þvo hárið annan eða þriðja hvern dag en fyrir aðra er einu sinni í viku eða á 10 daga fresti nóg.
Nauðsynlegt fyrir snarhrokkið hár: Stabilizing Scalp Shampoo, Fortifying Shampoo, Daily Conditioner, Hair Hydrating Crème, Hair Mask.