Gljúpleiki hárs 101

Hárgerð, þykkt, þéttleiki og gljúpleiki – svo virðist sem það séu óteljandi atriði sem þarf að huga að við hárumhirðuna. En til þess að þekkja hárið á sér þarf að vita hvers það þarfnast og hvernig best er að hugsa um það. Gljúpleiki getur vafist fyrir fólki í fyrstu en við ætlum að svipta hulunni af því hvers vegna hann skiptir máli.

Hvað er gljúpleiki?

Geta hárleggsins til að drekka í sig og viðhalda raka er skilgreind sem gljúpleiki. Hvert hár hefur ytra byrði sem er þakið yfirhúð sem virkar eins og fjöldi örsmárra dyra sem opnast og lokast. Þegar þessar dyr eru lokaðar kemst rakinn ekki inn fyrir. En hann kemst inn þegar þær eru opnar. Best er þegar þær opnast til að hleypa inn raka og lokast svo til að hann haldist inni. Þessar „dyr“ eru mismunandi eftir því hversu gljúpt hárið er.

Hver eru mismunandi stig gljúpleika?

Gljúpleika hárs er oftast skipt í þrjá flokka, lítið gljúpt, miðlungs gljúpt og mjög gljúpt.

  • Lítið gljúpt hár á við um hár þar sem ysta lagið er mjög þétt sem gerir það að verkum að erfitt er fyrir raka að komast inn í hárið. Hárið kann því að verða þurrt og viðkvæmt.
  • Miðlungs gljúpt hár er með ysta lag sem er lausara í sér og raki fer frekar inn í hárið og lokast inni á hárleggnum.
  • Mjög gljúpt hár er með mjög opið ysta lag sem verður til þess að erfitt er fyrir það að halda í sér raka. Þó rakinn komist auðveldlega inn í hárlegginn, næst ekki að loka hann vel inni. Hárið kann því að verða gróft og hrjúft.

Hvers vegna er mikilvægt að vita hversu gljúpt hárið er?

Með því að þekkja gljúpleika hársins geturðu frekar valið réttu vörurnar og aðferðirnar fyrir heilbrigt hár sem ekki skortir raka. Fólk með liðað, krullað eða snarhrokkið hár ætti að vera sérstaklega meðvitað um gljúpleikann ef það vill bæta áferð og minnka úfa.

Svona kannarðu hversu gljúpt hárið er:

Vatnsprófið er algeng leið til að athuga þetta. Vatnsprófið fer þannig fram að þú tekur eitt hár og setur það í vatnsglas í nokkrar mínútur. Hárið er mjög gljúpt ef það sekkur til botns. Hárið er miðlungs gljúpt ef það hangir í miðjunni. Og það er lítið gljúpt ef það flýtur bara á yfirborðinu.

Hvers konar raka þarf hárið miðað við þessi stig af gljúpleika?

Allt hár nýtur góðs af raka óháð hversu gljúpt það er. Það sem breytist er aðferðin og tíðnin.

Hvernig á að meðhöndla hár sem er lítið gljúpt:

Það er gott að vefja hárið með heitu handklæði á meðan Hair Mask er látinn bíða í. Hitinn ýfir ysta lag hársins tímabundið svo raki kemst inn áður en sléttist úr því á nýjan leik.

Hvernig á að meðhöndla hár sem er miðlungs gljúpt:

Þar sem ysta lagið er þegar opið á miðlungs gljúpu hári þarf engan hita meðan það er djúpnært. Settu Hair Mask í hárlengdina tvisvar í viku og láttu helst bíða yfir nótt.

Hvernig á að meðhöndla hár sem er mjög gljúpt:

Nota þarf hármaska a.m.k. tvisvar til þrisvar í viku til þess að lagfæra skemmt ysta lag og vernda hárið. Varast skal að nota hita meðan hárnæringin er í þar sem ysta lagið er þegar opið og viðkvæmt.

Auk djúpnærandi meðferða ættu allir, óháð gljúpleika, að nota bæði venjulega hárnæringu og hárnæringu sem skilin er eftir í hárinu.

Hefur gljúpleiki áhrif á krullur eða úfa?

Já, gljúpleiki hárs hefur áhrif á liði og krullur. Raki er nauðsynlegur til að viðhalda heilbrigðu ysta lagi og samfelldum liðum og krullum. Með því að loka rakann inni í hárinu verða krullurnar formfegurri og úfi minnkar.

Hefur gljúpleiki hárs áhrif á líkur á hármissi eða hárþynningu?

Gljúpleiki hárs hefur engin áhrif á líkur á hárþynningu. Hins vegar getur hárþynning haft áhrif á gljúpleika hársins. Eftir því sem hárið þynnist verður ysta lagið verra og nær ekki að halda ákjósanlegu rakastigi. Af þessum sökum getur hárið orðið úfið, þurrt og viðkvæmt fyrir sliti.