Á netinu má finna óteljandi kenningar og gróusögur um það hvernig líkamsrækt og sviti kunni að hjálpa eða hamla hárvexti. Byrjum á því að fá eitthvað af þessu á hreint: hreyfing er nauðsynleg fyrir heilsuna og það á einnig við um heilbrigði hárs og hársvarðar. Heilsurækt er nauðsynleg, hvort sem það er pilates eða pallaþrek, ballet, box eða bumbubolti. En eins og með allt í lífinu er mikilvægt að skapa jafnvægi og tileinka sér hóf.
Veldur líkamsrækt hárlosi?
Það eru engar vísindalegar sannanir fyrir því að hófleg líkamsrækt valdi hárlosi. Það er einungis þegar æfingarnar eru of tíðar eða erfiðar að þær geta farið að taka toll. Orsakasamhengi kann að vera milli ofþjálfunar og TE-hárkvillans (e. telogen effluvium) sem veldur miklu hárlosi vegna líkamslegs álags, skjóts þyngdartaps eða næringarskorts. Streita ein og sér veldur ekki hárlosi en getur orsakað breytingar á magni ýmissa hormóna í sermi, svo sem sykursterum, katekólamínum, vaxtarhormónum og prólaktíni. Margar af þessum breytingum teljast til nauðsynlegra viðbragða en sumar þeirra geta valdið innkirtlasvörunum og jafnvel truflunum. Kortisól er helsti sykursterinn sem losnar þegar við erum stressuð og það hefur áhrif á lotubundna stýringu á hársekkjum og getur leitt til aukins hárloss.
Hvað telst ofþjálfun?
Enginn er eins en ef líkamsræktin er farin að minna á þráhyggju, þú verður ítrekað fyrir meiðslum og léttist hratt, finnst þú örmagna eða ert með skapsveiflur gæti verið að þú sért að æfa of mikið. Sóttvarnarmiðstöð Bandaríkjanna (CDC) mælir með að fullorðnir fái tvo og hálfan tíma af meðal-kröftugri hreyfingu, þ.m.t vöðvastyrkjandi þjálfun tvo daga í viku. Bresku hjartaverndarsamtökin eru sömu skoðunar og telja að 2,5 klst. á viku sé hæfilega langt og að hver æfing megi vera allt niður í fimm til tíu mínútur.
Hvaða áhrif hefur streita á heilbrigði hárs og hársvarðar?
Ekki keyra líkamann inn í krónískt streituástand með ofþjálfun. Þegar kemur að streitu er mikilvægt að muna að streita er ekki eingöngu andleg heldur líka líkamleg. Meiðsl og vöðva- og liðverkir eru fylgifiskar of mikils álags á líkamann en afleiðingarnar teygja sig víðar. Streita getur valdið aukinni framleiðslu á húðfitu í hársekkjum vegna hormónabreytinga sem verða vegna streitu. Þetta kann svo að valda alvarlegri kvillum eins og flösu, húðbólgu í hársverði og sýkingu í hársekkjum – allt kvillar sem geta valdið hárlosi eða hárþynningu. Eins og áður hefur komið fram geta hormónabreytingar vegna streitu einnig leitt til TE-hárloss sem er röskun þar sem eðlilegur lífsferill hársins er truflaður og minna hár verður eftir í vaxtarfasa og meira hár færist skyndilega yfir í dvalar- og losunarfasa. Þetta lýsir sér sem víðtækt hárlos og hárþynning. Þegar streitan lætur undan síga ætti hárvaxtarferlið að hverfa í fyrra horf en oft kemur hárið ekki jafn gott til baka.
Veldur sviti hárlosi?
Nei, ekki ef þú þværð hár og hársvörð reglulega og á réttan hátt með góðu sjampói. Það eru u.þ.b. 100.000 svitakirtlar í hársverðinum (og tvær til fjórar milljónir á öllum líkamanum) sem framleiða svita. Líkaminn framleiðir svita, sem er 99% vatn og 1% fita og sölt, til að tempra líkamshita svo það gefur augaleið að svitamyndun er meiri við áreynslu. Þegar sviti safnast fyrir of lengi í hársverði getur hann haft neikvæð áhrif á gerlaflóru þar sem örverur þrífast þar sem ofgnótt er af olíu og hita, sem getur leitt til flösu, húðbólgu og jafnvel hárloss. Ef þú ert með góða þvottarútínu er því ekki hætta á því að þú skemmir hár eða hársvörð.
Í hnotskurn
Hófleg líkamsrækt eykur blóðflæði til hársekkja, minnkar streitu og stuðlar að betri svefni. Allt þetta eru þættir sem koma sér vel fyrir hársvörð og heilbrigði hárs. Sýndu bara jafn mikinn dugnað við hárþvottinn og æfingarnar.
Nauðsynlegt fyrir æfinguna
Stabilizing Scalp Shampoo
Stabilizing Shampoo er ekki bara hefðbundið sjampó heldur nærir það bæði hársvörð og hár. Það inniheldur efni úr Burdock Root Extract frá okkur og er hannað til þess að auka heilbrigði hársvarðar og styrkja þannig og bæta hárið.
Balancing Shampoo
Balancing Shampoo sem inniheldur mustarðskornolíu hreinsar hársvörðinn af olíu og leifum af hárvörum ásamt því að styrkja hárið. Þessi einstaka blanda veitir djúpa hreinsun sem er nógu mild til að hægt sé að nota hana daglega á meðan önnur sjampó á markaðnum þurrka gjarnan hárið um of og erta hársvörðinn.