Sjö Algengar Ástæður Fyrir Hárlosi Karla

Sís karlar eru almennt líklegri til að fá hárlos. Það er margt sem hefur áhrif á öll kyn t.d. erfðir, streita og vítamínsskortur en hárlos og hártap er algengara hjá fólki sem er með hærra magn testósteróns og díhýdrótestósteróns í blóði. Það þýðir að 66% karlmanna hafa orðið fyrir greinilegu hártapi í kringum 35 ára aldur og u.þ.b. 80% um fimmtugt. Það að finna orsökina er mikilvægt fyrsta skref í átt að réttri meðferð.

Erfðir sís karlmanna

Þó hormónatengd hárþynning (e. androgenetic alopecia) hrjái vissulega fólk af öllum kynjum, er þessi gerð hárloss algengari hjá sís körlum. Orsakirnar eru erfðir og aukning á díhýdrótestesteróni sem veldur smækkun á hársekkjum. Hárlos karla lýsir sér oft sem hækkuð kollvik eða hármissir á hvirfli.

Streita

Streita spyr ekki um kyn. Líffærafræðileg forgangsröðun fer í gang þegar álag er mikið, hvort sem það er líkamlegt, andlegt eða tilfinningalegt og björgum er útbýtt til nauðsynlegrar starfsemi – til dæmis að jafna sig eftir aðgerð eða meiðsl. Það þýðir að hárvöxtur lendir neðarlega í goggunarröðinni sem getur stundum leitt til TE-hárloss sem raskar eðlilegum lífsferli hársins. Minna hár verður eftir í vaxtarfasa og meira hár færist skyndilega yfir í dvalar- og losunarfasa. Þessi gerð hárloss verður oftast tveimur til þremur mánuðum eftir atburð eða áfall og birtist sem hárlos og hárþynning alls staðar á höfðinu. Þegar streitan lætur undan síga hverfur hárvaxtarferlið oftast í fyrra horf.

Sís karlar og öldrun hársekkja

Það að eldast er óhjákvæmilegt, líkt og með streituna. Það er sjaldséð að fólk sé með eins hár um fimmtugt (eða jafnvel þrítugt) og það hafði sem unglingur. Með aldrinum er eðlilegt að testósterón-framleiðsla í körlum minnki sem felur í sér smækkun hársekkja á höfðinu og þar með grennri og viðkæmari hárlegg með auknu sliti og hárlosi.

Heilsufar og sum lyf

Óhóflegt hárlos í körlum getur verið einkenni undirliggjandi kvilla eða bent til þess að þú sért með eitthvert heilsufarslegt vandamál. Algengir sjúkdómar sem tengjast hárlosi eru t.d. rauðir úlfar, sárasótt og vanvirkni eða ofvirkni skjaldkirtils, auk ýmissa sjálfsofnæmissjúkdóma. Aðrir kvillar svo sem sveppasýkingar í hársverði og blettaskalli geta valdið hártapi, hvort heldur sem er tímabundið eða jafnvel varanlegt. Ýmis lyf og meðferðir geta einnig skapað vandamál í hársverði, svo sem lyf við bólum í húð og háum blóðþrýstingi. Blóðþynningarlyf, beta-blokkar, sterar, retínóíð og lyfjameðferð geta einnig verið sökudólgar. Sem fyrr er mikilvægt að komast að orsök vandans áður en meðferð er hafin.

Næringarójafnvægi og vítamínskortur

Húðin í hársverðinum, líkt og húð annars staðar á líkamanum, þarf næg næringarefni til að starfa á fullum afköstum. Ójafnvægi þegar kemur að næringu getur haft talsverð áhrif á hár og hársvörð. Ýmis skortur svo sem á próteini, járni og ýmsum B-vítamínum svo sem ríbóflavíni, bíótíni, fólínsýru og B12, geta valdið miklu hárlosi. Það er mikilvægt allri heilsu og þar með hárheilsu að tryggja rétt magn hitaeininga, steinefna, nauðsynlegra fitusýra og vítamína.

Óheilbrigður hársvörður

Hársvörðurinn er mikilvægt vistkerfi sem hýsir milljónir örvera sem hafa áhrif á styrk og þéttleika hárs, fyllingu þess og útlit. Karlmenn framleiða oft meiri húðfitu sem ásamt svita, dauðum húðfrumum og hinum og þessum hárvörum geta safnast upp í hársverði og stíflað og skemmt hársekki. Það gerist oft vegna þess að tíðni eða gæðum hárþvotta er ábótavant. Að auki geta sumar hármótunarvörur sem gjarnan eru markaðssettar fyrir karlmenn valdið sliti, ertingu og bólgum í hársverði. Mjög heitar sturtur geta einnig orsakað þurrk og þrota. Það er brýnt að finna réttu rútínuna fyrir hársvörðinn fyrir góða hárheilsu og aukinn hárvöxt.

Ef þig grunar að hárið á þér sé að þynnast og finnur fyrir hárlosi, skaltu endilega bóka einstaklingsviðtal hjá hársérfræðingi okkar og kanna hvort aðferð Hårklinikken sé eitthvað fyrir þig.