Shopping cart .innerHTML = '(' + (0) pcs

    Við vitum hversu erfitt er að hætta að nota heit hármótunartæki þó við hvetjum almennt til að fólk noti þau sem minnst. Þau eru oft það sem við grípum í til að fullkomna greiðsluna. Þess vegna er mikilvægt að vita hvernig á að nota tækin svo hárið skemmist sem minnst. Lestu áfram til að fræðast um allt frá því hvernig þessi tæki virka, yfir í bestu stillingar og merki þess að þú sért að ofnota hárblásarann, sléttu- eða krullujárnið.

    Fjórar reglur fyrir heit hármótunartæki:

    1. Alltaf að nota hitavörn
    2. Notaðu heit tæki á rakt eða þurrt hár, aldrei blautt
    3. Ekki hafa þau heitari en 204°C (helst milli 120-150°C)
    4. Gefðu hárinu fullt af frídögum frá hita

    Hvernig virka heit hármótunartæki?

    Heit hármótunartæki breyta vetnistengjunum sem móta lögun hársins. Þegar hárið er hitað, veikjast þessi tengi sem gerir okkur kleift að móta hárið eftir hentugleika. Þess vegna eru heit tæki eins og sléttu- og krullujárn vinsæl leið til að slétta eða liða.

    Hvernig skemmir hiti hárið?

    Vetnistengi eru veikustu efnatengin og þau slitna við hita eða vatn. Þetta er ekki vandamál nema við förum illa með hárið þegar það er blautt eða hitað. Hitavörnin er ekki fyrir vetnistengin heldur fyrir ysta lag hársins. Þegar blautt hár kemst í snertingu við mikinn hita eykst vandinn þar sem vatn þenst hratt út og gufar upp inni í hverju hári og skemmir þannig ysta lag hársins. Þegar ysta lag hársins skemmist aukast líkurnar á því að hárið verði hrjúft og gróft, sem svo lýsir sér í þurru, viðkvæmu, líflausu, stríðu og úfnu hári.

    Notkun hita við hármótun getur aukið líkur á vandamálum í hársverði og gert fyrirliggjandi vandamál verri:

    • Þurrkur:
      Mjög heit hármótunartæki eins og sléttu- og krullujárn eða hárblásarar geta fjarlægt náttúrulegar olíur úr hársverðinum. Þetta getur leitt til þurrara hárs sem er líklegra til að slitna og valdið þurrum hársverði sem er viðvkæmur fyrir ertingu, flögnun og kláða.
    • Hitaskemmdir:
      Of mikil eða röng notkun á heitum hármótunartækjum getur valdið bruna í hársverði eða skemmdum á hársekkjum. Þetta getur skemmt húðina, valdið sársauka, roða, bólgum og jafnvel varanlegum skemmdum eða örmyndun í hársekkjum, veikingu í hárlegg og aukið þannig líkur á sliti.
    • Viðkvæmur hársvörður:
      Heit hármótun getur valdið viðkvæmari hársverði og bólgum, sérstaklega ef tækin eru notuð við háan hita eða ef hárgreiðslan tekur langan tíma. Hársvörðurinn getur þannig orðið viðkvæmari fyrir öðrum umhverfisþáttum eða vörum sem valda svo bólgum eða öðrum kvillum í hársverði. Bólgur geta leitt til kvilla eins og hársekkjabólgu eða æst upp fyrirliggjandi vandamál í hársverði, svo sem exem, sóríasis eða flösuþrefa.
    • Leifar af hárvörum:
      Heit hármótun felur oft í sér notkun á hárvörum, þ.m.t. eru sprey, gel eða serum. Þessar vörur geta svo safnast fyrir í hársverðinum. Leifar af hárvörum geta stuðlað að vandamálum í hársverði svo sem flösu og kláða.

    Hvernig er best að vernda hárið fyrir hitaskemmdum?

    Með hitavörn og þú ættir aldrei að nota heit tæki án hennar. Hitavörn myndar verndarhjúp milli tækis og hárs sem minnkar skemmdir á próteinbyggingu hársins af völdum hita og hjálpar til við að hárið haldi heilleika. Hair Hydrating Crème, (sem skilið er eftir í hárinu) Styling Gel og Styling Wax eru allt vörur sem virka bæði sem hármótunarefni og hitavörn.

    Á hvaða hitastig ætti að stilla tækin?

    Meginreglan er að hafa þau ekki heitari en 204°C. Helst milli 120-150°C.

    Er betra að blása hárið en að láta það þorna sjálft?

    Hvort um sig hefur kosti og galla. Það er yfirleitt fljótlegra að blása hárið og þú hefur meiri stjórn á greiðslunni en það getur einnig skemmt hárið ef þú togar í það með hárbursta, á miklum hita og jafnvel enn meira ef þú gerir þetta of oft. Að láta hárið þorna sjálft fer miklu betur með hárið og ýtir undir náttúrulegt útlit en það getur tekið lengri tíma og greiðslan verður kannski ekki alveg eins og þú vildir. Við mælum venjulega með því að hárinu sé leyft að þorna sjálfu þangað til það er einungis lítillega rakt áður en heit tæki eru notuð.

    Eru sum tæki betri fyrir hárið en önnur – hárblásarar, krullujárn, sléttujárn, air-wrap fjölnota tæki?

    Öll reglubundin notkun á heitum hármótunartækjum mun valda einhverjum skemmdum á hárinu og hugsanlega hársverði vegna hita og togs en nýrri tæki eru oft betri en þau eldri. Það er mikilvægt að hugsa um hitastillinguna og tíðni notkunar, ásamt því að nota tækni og tæki sem minnka tog sem fer illa með bæði hár og hársekki.

    Hver er munurinn á þeim efnum sem tækin eru gerð úr?

    Við val á krullu- eða sléttujárni skiptir efnið í hitaplötum og haus verulegu máli þegar kemur að heilbrigði hársins.

    Keramík -hármótunartæki veita jafna dreifingu á hita. Þetta minnkar líkur á „heitum svæðum“ á tækinu sem geta valdið hárskemmdum. Það tekur hins vegar lengri tíma að hita tæki úr hreinu keramíki og það brotnar auðveldlega, detti það í gólfið.

    Túrmalín er kristallað steinefni sem framkallar neikvæðar jónir sem geta lokað ysta lagi hársins og dregið úr úfnu hári.

    Títaníum er létt og endingargott efni sem hitnar hratt og kemur sér því vel ef tími er naumur. Títaníum kann þó að vera óhentugt fyrir fíngert eða skemmt hár þar sem efnið verður sérstaklega heitt.

    Jónatækni notar neikvæðar jónir til að slétta og hemja úfið hár. Tæknina má nota í bæði sléttu- og krullujárn óháð efni hitaplötunnar og hefur þann kost að hún virkar með minni hita.

    Keramík-títaníum -tæki sameinar kosti keramíks og títaníum. Markmiðið með þessari samsetningu er að bjóða upp á hraða hitun, jafna hitadreifingu og hnökralausa hárgreiðslu.

    Keramík-túrmalín blandar saman keramík og túrmalíni og hefur það að markmiði jafna hitadreifingu ásamt því að nýta eiginleika túrmalíns við að hemja úfið hár.

    Hvernig sé ég hvort ég er að ofnota heitu tækin?

    Algeng merki hitaskemmda eru meðal annars klofnir endar og trosnað hár, hrjúft, viðkvæmt og þurrt hár og mikill úfi. Þú gætir einnig tekið eftir því að hárið er viðkvæmara fyrir sliti og skortir gljáa. Ef þú ert að glíma við eitthvað af þessu gæti verið góð hugmynd að draga úr notkun á heitum tækjum og auka rakagefandi vörur.

    Hvernig laga ég hitaskemmt hár?

    Það er ekki hægt að laga hitaskemmdir að fullu en rakagjöf er lykillinn að því endurheimta heilbrigði í þurru og viðkvæmu hári og styðja við rétt skilyrði fyrir nýtt, heilbrigt hár. Það þýðir að ekki má sleppa hárnæringu eftir hárþvott. (Við mælum með að fólk með allar hárgerðir noti Daily Conditioner frá okkur, sem er í senn létt og rakagefandi. Ef þú notar heit tæki skaltu djúpnæra hárið áður með Hair Hydrating Crème og bæta um betur með Hair Mask einu sinni til tvisvar í viku.

    Are you in the right place?

    Please choose your shop

    Iceland
    ×

    It's more than hair. It's you